Í gær fór fram íbúafundur á Hvolsvelli um málefni Heilsugæslunnar í Rangárþingi eystra. Fundurinn var sérlega vel heppnaður og fram kom í ræðum að fólk hefði aldrei fyrr orðið vitni að jafn vel sóttum íbúafundi á Hvolsvelli.

Í aðdraganda fundarins var Íbúavefurinn nýttur til að safna undirskriftum, hvetja til mætingar á fundinn og sem vettvangur greinaskrifa um málefnið. Séu tímasetningar á undirskriftum skoðaðar má sjá skýr merki þess að greinaskrif á Íbúavefnum, sem síðan voru auglýst á öðrum samfélagsmiðlum, hafi haft töluverð jákvæð áhrif á söfnun undirskrifta. Þetta var í fyrsta skipti sem þessi nýja eining, undirskriftalistar, var notuð á Íbúavefnum og þess vegna er gaman að sjá með svo skýrum hætti að hún fellur vel að og spilar saman með annarri virkni sem boðið hefur verið uppá þar fyrir. Íslykill var notaður til auðkenningar en einnig var boðið upp á að staðfesta nafn sitt með hefðbundnum hætti á undirskriftalistum sem láu frammi á fjölförnum stöðum.

Í útprentuðum lista sem afhentur var á fundinum voru 652 undirskriftir sem söfnuðust á rétt tæpri viku. Það hlýtur að teljast mjög góður árangur í sveitarfélagi sem telur um 1700 manns á öllum aldri, en meira en 85% undirskriftanna voru frá fólki með skráða búsetu í sveitarfélaginu. Fjöldi undirskrifta safnaðist einnig frá nærsveitungum og fólki sem lét sig málið varða víða um land, og erlendis, sem er vel við hæfi í ferðamannahéraði eins og Rangárþingi eystra og þegar málefnið snýst um aðgengi að heilsugæslu.

Þessi íbúafundur og aðdragandi hans er ágætt dæmi um hvernig Íbúavefurinn getur nýst sem eitt af verkfærunum fyrir forystu sveitarfélags og íbúa þess til að gæta hagsmuna sinna, mynda samstöðu og samfélagsanda þegar upp koma mál sem brenna á fólki. Nú verður kappkostað að hann nýtist áfram vel í framhaldinu til þess að fylgjast með og lenda þessu máli farsællega fyrir sveitarfélagið og íbúa þess.

Fullur salur af fólki

Margir tóku til máls

652 nöfn á undirskriftalista sem Herdís fékk afhentan