Hafa samband: 694 4129 | ibuavefur@felagsstarf.is

Íbúavefurinn

Íbúavefurinn er hugbúnaður sem hugsaður er fyrir sveitarfélög til að skapa árangursríka umgjörð um raunverulegt og virkt íbúalýðræði. Áhersla er lögð á að hann falli vel að stjórnkerfinu á hverjum stað á sama tíma og tækifæri opnast til breyttra starfshátta. Áhersla er einnig lögð á að hann hafi fjölbreytta og aðlaðandi þátttökumöguleika fyrir íbúana og að leiðsögnin sem hann gefur inn í stjórnkerfið sé marktæk út frá lýðræðislegum sjónarmiðum. Við lítum á Íbúavefinn sem nýja innviði í samfélaginu og teljum hann gefa tóninn fyrir nýja og þroskaða nálgun í lýðræðismálum þar sem áherslan verður á heilsteypt og gott samfélag þar sem þýðingamikil og breið samvinna er um undirbúning og framkvæmd mála. Íbúavefurinn er í dag aðeins vísir að því sem koma skal en það eru spennandi tímar framundan sem gaman væri að sem flest sveitarfélög tækju þátt í, og settu svip sinn á, með samvinnu um áframhaldandi þróun Íbúavefsins.


Samfélag íbúannaÍbúavefurinn er tæki sem opnar raunhæfa leið til að efla íbúalýðræði í sveitarfélögum. Hann er þó meira en bara lýðræðistæki því hann er hannaður með það að leiðarljósi að styðja við eflingu samfélagsins í heild og samfélagsvitundar meðal íbúanna. Við viljum fá fólk til að ræða málin, deila hugmyndum, deila þekkingu og sýn og sameina krafta sína í þágu samfélagsins á vettvangi sem er aðgengilegur og þægilegur í notkun.


Hluti af stærri hugmyndÍbúavefurinn byggir á hugmyndafræði sem er yfirveguð og úthugsuð. Grunnhugmyndin var fyrst sett fram opinberlega í BA ritgerð í Heimspeki Hagfræði og Stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst árið 2007 undir heitinu „Leið að eflingu lýðræðissamfélags“ og síðan þá hefur hún haldið áfram að þroskast. Vegna þeirrar vönduðu grunnvinnu sem Íbúavefurinn og hugmyndafræðin í kringum hann byggir á er hönnun hans í góðu samræmi við þær ráðleggingar sem komu fram í ritinu „Leiðsögn um lýðræði í sveitarfélögum“ sem gefið var út af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands árið 2012. Enn er Íbúavefurinn þó aðeins á fyrstu stigum þróunar sem hugbúnaður og margt á eftir að bætast við áður en sú heildarmynd sem stefnt er að verður að veruleika. Ekkert vantar þó uppá til þess að hann jafnist núþegar fyllilega á við annað sem í boði er á þessu sviði í dag.


Örugg auðkenningFyrir ábygan lýðræðislegan vettvang eins og Íbúavefinn er mikilvægt að bjóða upp á örugga auðkenningu. Boðið er upp á innskráningu með auðkenningarþjónustu Þjóðskrár, Íslykli, og með sjálfvirkri uppflettingu í þjóðskrá er fundið út hvort viðkomandi sé íbúi í sveitarfélaginu eða ekki. Út frá þeim upplýsingum eru réttindi til skrifa og þátttöku í atkvæðagreiðslum ákvarðaður. Til þess að viðmót notandans sé einfalt og þægilegt er hægt að bjóða upp á sveigjanleika við innskráningu, svo sem með samfélagsmiðlatengingum, á þeim hlutum vefsins þar sem örugg auðkenning skiptir minna máli, án þess þó að slegið sé af öryggiskröfum á þeim hlutum vefsins þar sem örugg auðkenning skiptir meira máli.


Framvinda hugmyndaFarvegur hugmynda frá íbúum til stjórnkerfis er mikilvægur hluti af Íbúavefnum. Ferli hugmynda byggir á lágmarksstuðningi við hverja hugmynd og lágmarkssamstöðu meðal íbúanna um hana. Þannig geta hugmyndir frá íbúavefnum veitt raunverulega leiðsögn í stjórnkerfinu og íbúarnir hafa einnig næði til að finna lausn sem sátt er um þeirra á milli áður en stjórnkerfið tekur við málinu. Með lágum fyrsta þröskuldi í þriggja þrepa ferli skapast tækifæri til að deila nauðsynlegum upplýsingum milli íbúanna og stjórnkerfisins, sem nýtist síðan í áframhaldandi mótun hugmyndarinnar inni á Íbúavefnum.


SamfélagsmiðlarUm leið og Íbúavefurinn er sjálfur hugsaður sem samfélagsmiðill er tenging við aðra samfélagsmiðla einnig áhersluatriði hjá okkur. Sterk tengsl eru milli þess hve mikla athygli efni á Íbúavefnum fær og þess hve vel það er kynnt á öðrum samfélagsmiðlum eins og facebook. Tenging við samfélagsmiðla er eitt af þeim atriðum sem miklu máli skipta í upphafi þegar verið er að kynna Íbúavef til sögunnar í hverju sveitarfélagi og virkja fólk til þátttöku.


Fjölbreyttar tjáningarleiðirÁ Íbúavefnum er mikið lagt upp úr því að fá ólíkt fólk til að tjá sig og að fyrir hendi séu leiðir sem hverjum og einum þykja henta sér við að koma sýn sinni á framfæri. Núna til að byrja með er hægt að skrifa greinar, setja fram hugmyndir, skrifa athugasemdir og láta í ljós álit með takka-smellum ýmis konar. Fleiri möguleikar eru væntanlegir því það er okkar trú að bestu hugmyndirnar og verðmætasta framlagið frá íbúunum spretti fram í líflegri umræðu og skoðanaskiptum um ólík mál, en það er eitt af einkennum hugmyndafræðinnar sem hann byggir á, sjá hér. Íbúavefurinn er því byggður upp sem nokkurs konar umræðuvettvangur sem síðan hefur skýran farveg fyrir hugmyndir sem spretta fram og fá hljómgrunn meðal þátttakenda.


Hér hefur verið farið yfir nokkra eiginleika Íbúavefins sem hugbúnaðar, en það er þó aðeins annar hlutinn af jöfnunni. Það er fleira sem þarf að koma til svo að lýðræðislegur samfélagsmiðill á borð við Íbúavefinn verði virkur og lifandi vettvangur. Varðandi þau atriði bjóðum við sveitarfélögum upp á aðstoð við innleiðingu Íbúavefsins og ráðgjöf um notkun hans. Nánari upplýsingar um það eru hér: Ráðgjöf og innleiðing

Hafa samband: ibuavefur@felagsstarf.is