Á íbúafundi í gærkvöldi, 26. apríl, var sett í loftið ný viðbót við Íbúavefinn í Rangárþingi eystra. Viðbótin er umgjörð um það verkefni sem hafið var með formlegum hætti á fundinum, að endurskoða miðbæjarskipulag Hvolsvallar. Á vefnum eru teknar saman helstu upplýsingar varðandi skipulagsvinnuna, rammi verkefnisins og áherslur settar fram og íbúum gefinn kostur á að fylgjast með og ræða alla þætti verkefnisins. Á íbúafundinum var unnið í hópum að hugmyndavinnu um einstaka þætti skipulagsins og gert er ráð fyrir að þeirri vinnu verði haldið áfram á Íbúavefnum. Þar verður einnig hægt að fylgjast með framvindu endurskoðuninnar en hægt er að birta drög að nýju skipulagi eftir því sem vinnunni við það vindur fram og vera þannig í virkum samskiptum við íbúana meðan á vinnunni stendur og áður en hið lögformlega umsagnarferli hefst.