Í dag opnaði Íbúavefur Reykjanesbæjar formlega. Ásamt því að geta haft frumkvæði að hvaða umræðu sem er geta íbúar Reykjanesbæjar núna tjáð sig sérstaklega um einstök atriði í Framtíðarsýn Reykjanesbæjar til ársins 2015 sem verið hefur í mótun í stjórnkerfi bæjarins og á íbúafundum.

Starfsmaður mun hafa umsjón með vefnum og er honum ætlað að vera íbúum til leiðbeiningar og liðka fyrir samskiptum milli íbúanna á íbúavefnum og stjórnkerfis bæjarins. Til þess verkefnis hefur verið fengin Svanhildur Eiríksdóttir, stjórnsýslufræðingur, en mastersritgerð hennar í Opinberri stjórnsýslu fjallaði einmitt um íbúalýðræði og bar titilinn „Rættist draumurinn? Um virkni samráðsvefjarins Betri Reykjavík í ljósi íbúalýðræðis.“ Okkur þykir mikill fengur í að fá Svanhildi að verkefninu og vonumst eftir áframhaldandi góðu samstarfi við hana sem og aðra sem að verkefninu koma hjá Reykjanesbæ.

Tengt íbúavefnum hefur einnig verið stofnuð facebook síða sem ætlað er að vekja athygli á vefnum og auðvelda fólki að fylgjast með því sem þar fer fram. Svanhildur mun einnig hafa umsjón með þeirri síðu.